Linux fyrir alla!

Ertu kominn með leið á endalausum nauðungaruppfærslum í Windows? Er tölvan þín orðin of gömul fyrir allt draslið sem Windows er að keyra? Ertu búinn að fá leið á niðurnjörvuðu valmöguleikum Apple? Linux er fyrir þig, og alla hina líka.

1. Er Linux ekki bara fyrir sérfræðinga?

Nei. Í dag þá eru margar útgáfur Linux í raun einfaldari fyrir venjulegt fólk heldur en allavega Windows. Fyrir rúmum áratug, þegar ég byrjaði að fikta í Linux, þá þurfti ennþá að fikta í allskonar stillingum. Í dag þarftu ekki að vita hvað „sudo“ þýðir nema að þig langi að fikta.

2. Er ekki flókið að setja upp nýtt stýrikerfi?

Í dag er uppsetning á Linux oftast alveg fáránlega einföld og fljótleg. Þar að auki er hægt að prufa margar Linux tegundir á einfaldan hátt. Stýrikerfið er sett á USB-lykil (t.d. með Windows forritinu Rufus) og þá er hægt að opna kerfið í tölvunni og sjá hvernig það lítur út áður en þú setur það upp. Það þarf þó að hafa í hug að stýrikerfið gæti verið hægvirkara ef það er keyrt af USB-lykli heldur en innbyggðum disk.

3. Er ekki erfitt að finna og setja upp forrit í Linux?

Nei. Flestar nútímaútgáfur af Linux eru með frekar notendavænar forritamiðstöðvar þar sem hægt er að setja inn forrit með einum smelli, svipað og í forritabúðum snjallsíma. Þú þarft líka ekkert að endurræsa.

Stundum þarf fólk að venjast því að nota fleira en eitt forrit í verkefni í Linux. Windowsforrit eiga það til að bólgna upp af allskonar fídusum en Linux forrit hafa oft það markmið að gera eitthvað eitt vel. Þannig myndirðu kannski nota GIMP, Krita og Inkscape í myndvinnslu frekar en bara Photoshop. Það gæti samt líka verið að þú hafir aldrei verið að nota nema svo lítinn part af Photoshop þannig að Krita eða Gimp myndu duga þér.

4. Það eru engir leikir fyrir Linux

Eitt orð: Steam.

5. Fáir nota Linux

Þú notar Linux oft á dag. Vefurinn keyrir meira og minna á Linux, þetta blogg keyrir á Linux og Facebook keyrir á Linux. Android símar keyra á Linux. Flest stór kerfi þurfa þann stöðugleika sem Linux bíður upp á og í dag þá er hægt að fá þennan stöðugleika á notendavænu formi fyrir einstaklinga.