Það eru margir sem vilja prufa Linux en vilja ekki hætta með Windows af því að það eru einhver forrit þar sem virðast ómissandi. Fyrir marga þá er þetta svona öryggislína sem að lokum verður alveg óþörf og var kannski alltaf óþörf.
Með Linux er oftast auðvelt að setja tvö stýrikerfi á sömu tölvu. Þú bara velur þann valmöguleika í uppsetningunni. Þá býr Linux til pláss fyrir sig inni á harða drifinu og skilur eftir pláss fyrir Windows og það sem því fylgir. Linux getur þá lesið allar skrár sem eru á Windows-hlutanum en Windows getur ekki séð það sem er á Linux-partinum.
Þegar þú kveikir á tölvunni þá getur þú síðan valið um hvort þú opnar Linux eða Windows og þá er annar möguleikinn almennt sjálfgefinn ef þú breytir ekki valinu innan ákveðinna tímamarka.
2. WineHQ
Wine er Windows „hermir“ í Linux sem getur keyrt mörg Windows forrit. Þannig að ef þú vilt ekki missa einhver forrit þá geturðu séð hvort Wine ráði við að keyra þau. Það er ekki alltaf hægt en oft og Linux notendur eru duglegir að deila upplýsingum um hvaða forrit virka, og virka ekki, í Wine.
3. Virtual Box
Virtual Box er kannski fyrir lengra komna en það er skemmtilegt tól fyrir fiktara. Þetta er forrit sem getur búið til sýndarvélar með öðrum stýrikerfum. Þannig að ef þú ert með uppsetningardisk með Windows, hvort sem það er Windows 10 eða Windows 3.11, þá geturðu bara sett það upp í þessu forriti og þá geturðu notað það eins og um aðra tölvu sé að ræða.
Þú ræður hve mikið af vinnslukrafti tölvunnar þinnar fer til þessara sýndarvéla. Ég lenti reyndar einhvern tímann í þeirri fáránlegu stöðu að Windows virkaði betur sem sýndarvél í tölvu heldur en sem stýrikerfi á sömu tölvu.
Virtualbox er líka frábær lausn ef þú ert með gömul forrit sem ekki lengur ganga á nýjustu Windows útgáfunum. Ef þú átt gömlu Windows diskana, eða getur reddað þeim, þá geturðu sett það upp á sýndarvél og keyrt forritin eins og ekkert sé. Það sama á við um t.d. gömul Dos forrit.
Ég hef líka notað Virtualbox til að prufa aðrar Linux útgáfur. Topp-forrit sem fagmenn nota og fiktarar geta fiktað í.