Að setja upp forrit í Linux

Ekki fara á netið að leita að forritum. Opnaðu hugbúnaðarumsýslukerfið og leitaðu þar. Þetta minnir töluvert á snjallsíma eða spjaldtölvur. Yfirleitt kosta þessi forrit ekki neitt en bjóða oft upp á að styrkja höfunda forritsins. Það er hægt að setja inn forrit á annan hátt en ef þú hefur ekki á áhuga á fikti þá er best að nota leiðina sem stýrikerfið býður upp á.

Í Linux er yfirleitt ekkert hægt að stjórna hvar í skráarkerfinu forritið er sett upp og almennt þá þarftu ekkert að vita hvar þau eru geymd.

Kerfið sér líka um að uppfæra forritin þín og stýrikerfið. En það spyr alltaf fyrst. Það er líka mjög ólíklegt að þú þurfir að endurræsa tölvuna eftir uppfærslur en ef kerfið þarf að endurræsa sig þá getur þú alltaf sagt nei.

Linux fyrir alla!

Ertu kominn með leið á endalausum nauðungaruppfærslum í Windows? Er tölvan þín orðin of gömul fyrir allt draslið sem Windows er að keyra? Ertu búinn að fá leið á niðurnjörvuðu valmöguleikum Apple? Linux er fyrir þig, og alla hina líka.

1. Er Linux ekki bara fyrir sérfræðinga?

Nei. Í dag þá eru margar útgáfur Linux í raun einfaldari fyrir venjulegt fólk heldur en allavega Windows. Fyrir rúmum áratug, þegar ég byrjaði að fikta í Linux, þá þurfti ennþá að fikta í allskonar stillingum. Í dag þarftu ekki að vita hvað „sudo“ þýðir nema að þig langi að fikta.

2. Er ekki flókið að setja upp nýtt stýrikerfi?

Í dag er uppsetning á Linux oftast alveg fáránlega einföld og fljótleg. Þar að auki er hægt að prufa margar Linux tegundir á einfaldan hátt. Stýrikerfið er sett á USB-lykil (t.d. með Windows forritinu Rufus) og þá er hægt að opna kerfið í tölvunni og sjá hvernig það lítur út áður en þú setur það upp. Það þarf þó að hafa í hug að stýrikerfið gæti verið hægvirkara ef það er keyrt af USB-lykli heldur en innbyggðum disk.

3. Er ekki erfitt að finna og setja upp forrit í Linux?

Nei. Flestar nútímaútgáfur af Linux eru með frekar notendavænar forritamiðstöðvar þar sem hægt er að setja inn forrit með einum smelli, svipað og í forritabúðum snjallsíma. Þú þarft líka ekkert að endurræsa.

Stundum þarf fólk að venjast því að nota fleira en eitt forrit í verkefni í Linux. Windowsforrit eiga það til að bólgna upp af allskonar fídusum en Linux forrit hafa oft það markmið að gera eitthvað eitt vel. Þannig myndirðu kannski nota GIMP, Krita og Inkscape í myndvinnslu frekar en bara Photoshop. Það gæti samt líka verið að þú hafir aldrei verið að nota nema svo lítinn part af Photoshop þannig að Krita eða Gimp myndu duga þér.

4. Það eru engir leikir fyrir Linux

Eitt orð: Steam.

5. Fáir nota Linux

Þú notar Linux oft á dag. Vefurinn keyrir meira og minna á Linux, þetta blogg keyrir á Linux og Facebook keyrir á Linux. Android símar keyra á Linux. Flest stór kerfi þurfa þann stöðugleika sem Linux bíður upp á og í dag þá er hægt að fá þennan stöðugleika á notendavænu formi fyrir einstaklinga.

Linux og Windows saman – nokkrar lausnir

Það eru margir sem vilja prufa Linux en vilja ekki hætta með Windows af því að það eru einhver forrit þar sem virðast ómissandi. Fyrir marga þá er þetta svona öryggislína sem að lokum verður alveg óþörf og var kannski alltaf óþörf.

1. Ein tölva – tvö stýrikerfi

Með Linux er oftast auðvelt að setja tvö stýrikerfi á sömu tölvu. Þú bara velur þann valmöguleika í uppsetningunni. Þá býr Linux til pláss fyrir sig inni á harða drifinu og skilur eftir pláss fyrir Windows og það sem því fylgir. Linux getur þá lesið allar skrár sem eru á Windows-hlutanum en Windows getur ekki séð það sem er á Linux-partinum.

Þegar þú kveikir á tölvunni þá getur þú síðan valið um hvort þú opnar Linux eða Windows og þá er annar möguleikinn almennt sjálfgefinn ef þú breytir ekki valinu innan ákveðinna tímamarka.

2. WineHQ

Wine er Windows „hermir“ í Linux sem getur keyrt mörg Windows forrit. Þannig að ef þú vilt ekki missa einhver forrit þá geturðu séð hvort Wine ráði við að keyra þau. Það er ekki alltaf hægt en oft og Linux notendur eru duglegir að deila upplýsingum um hvaða forrit virka, og virka ekki, í Wine.

3. Virtual Box

Virtual Box er kannski fyrir lengra komna en það er skemmtilegt tól fyrir fiktara. Þetta er forrit sem getur búið til sýndarvélar með öðrum stýrikerfum. Þannig að ef þú ert með uppsetningardisk með Windows, hvort sem það er Windows 10 eða Windows 3.11, þá geturðu bara sett það upp í þessu forriti og þá geturðu notað það eins og um aðra tölvu sé að ræða.

Þú ræður hve mikið af vinnslukrafti tölvunnar þinnar fer til þessara sýndarvéla. Ég lenti reyndar einhvern tímann í þeirri fáránlegu stöðu að Windows virkaði betur sem sýndarvél í tölvu heldur en sem stýrikerfi á sömu tölvu.

Virtualbox er líka frábær lausn ef þú ert með gömul forrit sem ekki lengur ganga á nýjustu Windows útgáfunum. Ef þú átt gömlu Windows diskana, eða getur reddað þeim, þá geturðu sett það upp á sýndarvél og keyrt forritin eins og ekkert sé. Það sama á við um t.d. gömul Dos forrit.

Ég hef líka notað Virtualbox til að prufa aðrar Linux útgáfur. Topp-forrit sem fagmenn nota og fiktarar geta fiktað í.